Erlent

Forskotið minnkar í Þýskalandi

Angela Merkel og kristilegir demókratar í Þýskalandi virðast vera að klúðra forskotinu sem þau höfðu á Gerhard Schröder kanslara og jafnaðarmannaflokk hans. Kannanir sem birtar hafa verið undanfarna daga benda til þess að samsteypustjórn stóru flokkanna sé eina lausnin að loknum kosningum. Mánuðum saman hefur verið talið víst að Angela Merkel myndi brjóta blað í þýskri stjórnmálasögu og verða bæði fyrsti kvenkanslari Þýskalands og sá fyrsti frá gamla Austur-Þýskalandi. Sigurinn stefndi í að vera afgerandi, en nú, rúmri viku fyrir kosningar, er landslagið annað. Í morgun kom fjórða könnunin í röð sem bendir til þess að kristilegir demókratar geti ekki myndað meirihlutastjórn með frjálslynda flokknum FDP. Kristilegir demókratar fengju, samkvæmt könnunum, um fjörutíu og eitt prósent atkvæða og yrðu stærsti flokkurinn en frjálslyndir fengju aðeins sjö prósent og því myndi samanlagt fylgi ekki duga til. Jafnaðarmenn og græningjar fengju, samkvæmt könnunum, fjörutíu og eitt prósent og vinstri flokkurinn átta prósent. Jafnaðarmenn vilja ekki starfa með vinstriflokknum svo að þriggja flokka samsteypustjórn kemur ekki heldur til greina. Því stefnir allt í að eina lausnin verði samsteypustjórn stóru flokkanna, Jafnaðarmannaflokksins og kristilegra demókrata. Hver sæti þar í forsæti er óvíst en bæði hagfræðingar og fréttaskýrendur segja þetta slæman kost. Stefnumál flokkanna séu ólík og afleiðingarnar yrðu að líkindum óstöðugleiki og stöðnun í efnahagsumbótum. Þrátt fyrir þetta sýna kannanir að þrjátíu og fimm prósent aðspurðra telja samsteypustjórn af þessu tagi bestu útkomuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×