Innlent

Davíð stöðvaði breytingu laga

Davíð Oddsson fær á fjórða hundrað þúsund króna í eftirlaun ásamt launum sem formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands þegar hann tekur við starfinu þann 20. október. Eftirlaunin fara stighækkandi til 65 ára aldurs því skerðingin vegna annarra starfa minnkar sem á líður. Lög um eftirlaun ráðherra og þingmanna voru endurskoðuð í lok árs 2003 og í kjölfarið voru ný lög samþykkt. Þegar Fréttablaðið upplýsti snemma árs að nokkrir fyrrverandi ráðherrar þæðu eftirlaun þrátt fyrir að vera enn á fullum launum í öðrum störfum á vegum ríkisins hét Halldór Ásgrímsson því á Alþingi að ákvæðið yrði tekið til endurskoðunar. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru framsóknarmenn staðráðnir í því í apríl að afnema ákvæðið úr lögunum en sjálfstæðismenn sögðu það ekki koma til greina. Í þrjá mánuði á vordögum tókust ráðherrar flokkanna á um hvort, og þá hvernig, breyta eigi lögunum og var ætlunin að leggja fram nýtt stjórnarfrumvarp fyrir þinglok í maí. Meðal annars hafa flokkarnir tekist á um það hvort brotið yrði gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar ef tekinn yrði af mönnum réttur sem þeim þegar hefur verið fenginn, það er rétturinn á því að þiggja eftirlaun og laun samhliða. Davíð Oddsson sagði í fjölmiðlum í apríl að ekki stæði til að breyta lögunum. Heimildir Fréttablaðsins segja að framsóknarmenn hafi fallist á kröfur sjálfstæðismanna um að fresta málinu fram á haust. Fulltrúar allra flokka stóðu að frumvarpinu á sínum tíma og hafa allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkur lýst yfir vilja til að afnema ákvæðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×