Erlent

Gæti ráðist á örfáum atkvæðum

Úrslit í þingkosningunum í Noregi gætu oltið á örfáum atkvæðum, svo lítill er munurinn á fylgi vinstri flokkanna og bandalagi miðju- og hægriflokkanna samkvæmt skoðanakönnunum, daginn fyrir kosningar. Norðmenn ganga að kjörborðinu á morgun og svo virðist sem kosninganóttin verði æsispennandi. Framanaf var vinstriflokkunum spáð sigri og Jens Stoltenberg, leiðtogi jafnaðarmanna, var í huganum farinn að máta forsætisráðherrastólinn á ný. Síðan sigu Kjell Magne Bondevik, leiðtogi Kristilega þjóðarflokksins, og hans bandalag fram úr aftur og var því spáð að hann gæti jafnvel haldið forsætisráðherraembættinu en því hefur hann gegnt frá árinu 2001. Bondevik hefur lagt áherslu á skattalækkanir og bent á góðan árangur í efnahagsmálum undanfarin ár - rúmlega fjögurra prósenta hagvöxt, mjög lága verðbólgu og vexti og lítið atvinnuleysi. Jafnaðarmenn saka hann hins vegar um að hafa sniðgengið hin klassísku, norrænu gildi og leggja áherslu á frekari uppbyggingu velferðarkerfisins fyrir olíupeningana sem streyma nú inn í ríkiskassann í kjölfar gríðarlegra olíuverðshækkana. Nú, daginn fyrir kjördag, benda skoðanakannanir til þess að munurinn á bandalögunum gæti orðið aðeins eitt til tvö þingsæti og því skiptir hvert atkvæði máli. Flokkarnir keppast því við það þessar síðustu klukkustundir að reyna að ná til þeirra rúmlega tuttugu prósenta kjósenda sem að jafnaði sitja heima á kjördag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×