Viðskipti innlent

Vísitalan lækkaði enn einn daginn

Gengi hlutabréfa í Kauphöllinni snarlækkaði í dag. Úrvalsvísitalan hefur lækkað þrjá daga í röð. Sérfræðingur í greiningardeild Íslandsbanka telur engar ástæður til að hafa áhyggjur af þróuninni. Strax í morgun lækkuðu hlutabréfin í flestum fyrirtækjum Kauphallarinnar verulega. Lækkunin gekk aðeins að litlu leyti til baka í lok dags og þegar upp var staðið hafði úrvalsvísitalan lækkað um 2,17%. Mest lækkuðu bréf í Icelandic Group en bréf í Landsbankanum, Burðarási og Marel lækkuðu einnig verulega. Alla þessa viku hefur úrvalsvísitalan lækkað jafnt og þétt. Ástandið er þó ekkert óeðlilegt að mati sérfræðinga. Atli B. Guðmundsson hjá greiningardeild Íslandsbanka segir að eftir skarpar hækkanir undanfarið sé eðlilegt að nú komi lækkun og það þrjá daga í röð. Samtals er þetta lækkun upp á 5%. Hann segir líklegt að lækkunin haldi jafnvel áfram í nokkra daga, en síðan sjái stórir fjárfestar sér hag í að kaupa að nýju. Heildarlækkun úrvalsvísitölunnar fyrstu þrjá daga vikunnar nemur 4,9% en af einstökum félögum hafa bréf í Burðarási lækkað mest, eða um 6,3%. Þá hafa bréf í Bakkavör, Íslandsbanka og Landsbankanum lækkað um meira en fimm prósent það sem af er vikunni. Atli telur skýringuna að finna í varúðarorðum um efnahagsmál undanfarna daga, bæði fréttir um efnahagsumhverfið og umræðurnar sem spunnust í kjölfarið. Aðspurður hvort þetta sé eitthvað sem þurfi að hafa áhyggjur af segir Atli að sér finnist þetta mjög eðlilegur hluti af virkum markaði, hann geti bæði sinnt tímabilum þar sem séu hækkanir og þegar það eru lækkanir. 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×