Innlent

Tíu takast á um sex sæti

Framboðsfrestur forvals Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs fyrir borgarstjórnarkosningar næsta vor rann út á föstudag, en forvalið verður 1. október. Utankjörfundar atkvæðagreiðsla fer fram 28. og 30. september. Samkvæmt forvalsreglum flokksins hafa allir félagsmenn búsettir í Reykjavík kosningarétt. Frestur til að ganga í flokkinn til að kjósa í forvalinu rennur út á föstudag. Forvalið gengur þannig fyrir sig að kjósandi fær lista með nöfnum frambjóðenda og raðar þeim í sex efstu sætin. Vinstri grænir bjóða fram fléttulista, þannig að sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði í efsta sætið fær það sæti. Frambjóðandi af gagnstæðu kyni sem fær flest atkvæði í fyrsta og annað sæti, hlýtur annað sætið. Sá sem fær flest atkvæði í fyrsta til þriðja sæti, raðast í þriðja sætið. Frambjóðandi af gagnstæðu kyni sem fær flest atkvæði í fyrsta til fjórða sæti, raðast í fjórða sætið. Sama gildir um fimmta og sjötta sæti. Kosning telst bindandi ef frambjóðandi fær yfir 40 prósent atkvæða í sæti. Samkvæmt reglum Vinstri grænna er frambjóðendum óheimilt að kaupa sér auglýsingar í fjölmiðlum vegna forvalsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×