Innlent

Ringulreið í Þýskalandi

Tveir gera tilkall til kanslaraembættisins í Þýskalandi en hvorugur virðist geta myndað starfhæfa stjórn. Ringulreið er í landinu kjölfar þingkosninganna í gær sem skiluðu í raun engri ákveðinni niðurstöðu. Það munar rétt um prósentustigi á fylgi stóru flokkanna, fylgi jafnaðarmannaflokks Gerhards Schröders, sem fékk ríflega þrjátíu og fjögur prósent atkvæða, og kristilegra demókrata Angelu Merkel, sem fengu ríflega þrjátíu og fimm prósent. Segja má að bæði hafi tapað í þessum kosningum: báðir flokkarnir töpuðu allnokkru fylgi og hvorugur getur myndað ríkisstjórnina sem stefnt var að fyrir kosningar. Schröder ber sig vel og segist geta setið áfram sem kanslari og Merkel er ekki síður kokhraust. Hún vill sjálf mynda stjórn og verða kanslari. Hún sagði í dag að hún hefði beðið lengi eftir þessu og ítrekaði að hennar flokkur væri stærsti flokkurinn og hefði því mest tilkall til að mynda stjórn. Í morgun var talið að Merkel gæti orðið skammlíf í formannsembættinu og að henni yrði kennt um að flokkurinn hefur aðeins einu sinni frá lokum seinni heimsstyrjaldar fengið minna fylgi. Flokksfélagar hennar virðast ætla að gefa henni tíma og veittu henni eindreginn stuðning til stjórnarmyndunar síðdegis. Hvernig þetta á að ganga fyrir sig veit í raun enginn. Kristilegir demókratar fengu mest fylgi og ættu í raun þess vegna að hefja stjórnarmyndun. En sitjandi kanslari kveðst geta setið áfram og því ekki um annað að ræða en að hann reyni líka stjórnarmyndun. Þetta virðist því verða hálfgert kapphlaup um hver bíður best og hraðast. Græningjar virðast sem stendur vera í oddastöðu og geta myndað stjórn með báðum stjóru flokkunum í þriggja flokka stjórnum. Joschka Fischer virtist raunar þegar í gær reyna að gera lýðum ljós að græningjar væru ekki samvaxnir Schröder og jafnaðarmönnum. Schröder virðist hafa tekist varnarsigur í stöðunni. Holger Schmidt-Denker, fréttamaður hjá fréttastöðinni N-TV, segir að menn reikni með að þeim málum sem Merkel hefur kynnt í kosningabaráttunni muni hún líka hrinda í framkvæmd, þ.e. að skapa fleiri störf. „Það verður spennandi að fylgjast með því og hún verður metin eftir því. Henni verður ekki gefin sá tími sem Schröder hefur haft frá 1998; hún þarf að sýna fram á árangur mjög fljótt, annars mun hún standa frammi fyrir miklum erfiðleikum, bæði gagnvart fjölmiðlum og eigin flokki.   Deilurnar um það hver verði kanslari gætu staðið í margar vikur.   



Fleiri fréttir

Sjá meira


×