Innlent

Embætti sé í höndum óhæfra manna

MYND/Róbert
Össur Skarphéðinsson alþingismaður vill að æðstu menn Ríkislögreglustjóra verði settir af vegna slælegrar frammistöðu í Baugsmálinu og málverkafölsunarmálinu. Össur segir á heimasíðu sinni að í kjölfar þess að Héraðsdómur vísaði Baugsmálinu frá í heild sinni, þar sem ákærurnar hafi verið ótæk moðsuða, verði dómsmálaráðhera að taka í taumana því það sé á hans ábyrgð að stofnanir ráðuneytisins séu ekki í höndum fúskara. Össur segir að stjórn embættis Ríkislögreglustjóra sé augljóslega í slíkum molum að það sé ekki boðlegt í réttarríki. Hann rifjar upp það sem hann kallar klúðrið í stóra málverkafölsunarmálinu þar sem fokdýr rannsókn hafi engu skilað fyrir klaufaskap og segir að ekki sé séð fyrir endann á kostnaði við fúskið í Baugsmálinu. Össur segir að Baugsmálið og myndfölsunarmálið leiði einfaldlega að þeirri niðurstöðu að embætti Ríkislögreglustjóra sé í höndum óhæfra manna. Í öllum eðlilegum réttarríkjum væru þeir nú settir til hliðar og það sé verk sem bíði dómsmálaráðherra ef eitthvað blóð sé í honum. Össur býður fram aðstoð sína á Alþingi við að koma þessum mönnum frá ef þörf krefji.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×