Erlent

Þrýstingur á Berlusconi eykst

Enn eykst þrýstingurinn á Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, að reka seðlabankastjórann Antonio Fazio eða segja sjálfur af sér ella. Í gær sagði fjármálaráðherrann Domenico Sinisalco af sér í mótmælaskyni við það að seðlabankastjórinn Fazio sæti sem fastast án þess að nokkur gerði neitt. Berlusconi setti Giulio Tremonti í embætti fjármálaráðherra í stað Sinisalcos, en Tremonti var sjálfur rekinn úr ríkisstjórninni fyrir rúmu ári. Fazio er gefið að sök að hafa kastað öllu hlutleysi fyrir róða þegar Banca Antonveneta var seldur í júlí. Þá aðstoðaði hann ítalska bankann Banca Popolare Italiana í baráttu við hollenska bankann ABN AMRO, sem er tvímælalaust lögbrot. Fazio hefur hins vegar neitað að víkja og reyndar neitað því að hafa gert nokkuð rangt og situr nú fund Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í Washington. Nýendurskipaði fjármálaráðherrann Tremonti hefur skömm á Fazio og hyggst ekki yrða á hann á fundinum, þar sem þeir munu sitja hlið við hlið. Berlusconi sjálfur segir að Evrópski seðlabankinn verði að reka Fazio en því hafnar bankinn alfarið og segir ítalska seðlabankann verða að sjá um það sjálfur. Málið þykir orðið svo vandræðalegt fyrir ítölsku ríkisstjórnina að bæði innlendir og erlendir fjölmiðlar eru farnir að ræða mögulega afsögn Berlusconis. Ólíklegt er að af því verði en þingkosningar verða á Ítalíu ekki síðar en næsta vor. Berlusconi hefur þó gengið svo langt í kjölfar allra þessara vandræða að orða þann möguleika að einhver annar en hann sjálfur leiði bandalag mið- og hægriflokkanna fyrir kosningarnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×