Innlent

Davíð kveður þakklátur

Davíð Oddsson utanríkisráðherra sat sinn síðasta ríkisstjórnarfund í gær, en hann tekur við stöðu seðlabankastjóra 20. október næstkomandi. Ráðherraskiptin urðu á ríkisráðsfundi síðdegis í gær. "Ég er kátur, ánægður og þakklátur fyrir að hafa fengið með afgerandi hætti að fá að hafa áhrif á þróun lands- og þjóðmála," sagði Davíð að loknum ríkisráðsfundi. "Þetta er fjölbreyttur ferill, ekki bara að þjóðmálum heldur líka borgarmálum. Ég hef haft fleiri ráðherra í samstarfi með mér en flestir aðrir hygg ég og á vináttu þeirra. Það er mikið ánægjuefni og ein skýring þess að margt hefur gengið vel þótt menn hafi misjafnar skoðanir á því hvort ég hef komið góðu til leiðar," sagði Davíð. Á ríkisráðsfundinum í gær tók Geir H. Haarde við embætti utanríkisráðherra af Davíð Oddssyni. Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra tók við embætti fjármálaráðherra af Geir. Einar K. Guðfinnsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi tók við embætti sjávarútvegsráðherra af Árna og er hann nýr í ríkisstjórn Halldórs Ásgsrímssonar. "Þetta er málaflokkur sem ég hef mikinn áhuga á og hef starfað að honum utan þings og innan um langt skeið," sagði Einar að loknum ríkisráðsfundinum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×