Innlent

Innmúraðir samráðsbræður

 Guðjón A Kristjánsson þingmaður Frjálslynda flokksins sagði að svokölluð Baugsmál vektu athygli á þeirri staðreynd að hér á landi virstust vera sérstakar innvígðar klíkur sem með sérstöku samráði væri ætlað að leggja línur um málsmeðferð og á það lagt mat hvort il dæmis fjármálaráðherra vildi gefa samþykki sitt fyrir því hvort þar til bærar stofnanir fengju mál til meðferðar. Sagt væri að það væri gott að eiga samráðsbræður í málum sem gengju til rannsóknar og dómstóla. „Menn verða innmúraðir í trúnaðinum við sinn flokk eftir að hafa undirbúið rétta leið í málsmeðferðinni - innan gæsalappa - og fengið vitneskju um að aðförin væri með fullum vilja forystumanna. Þjóðin fær varla trúað að svona neðanjarðarspilling sé til staðar. Og þannig er því einnig farið með þingmenn og miðstjórn Frjálslynda flokksins sem ræddi þessi mál og önnur á fundi í síðustu viku. Við eigum sem betur fer ekki aðkomu í klíkuskapinn, í tölvupóstum eða matarboðum." Guðjón ítrekaði að þeir ættu að víkja sem tengdust málum svo almenningur missti ekki trú sína á íslenskt réttarfar. Hann minntist á aðkomu forsætisráðherra að sölu Búnaðarbankans og taldi klaufalegt að hyggja ekki í tíma að hugsanlegu vanhæfi. Vandasamt væri að gæta hlutleysis í vina- og kunningjaþjóðfélagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×