Innlent

Bæjarstjórn Bolungarvíkur klofin

MYND/Brynjar Gauti
Bæjarstjórn Bolungarvíkur er klofin í afstöðu sinni til vegbóta á veginum um Óshlíð. Meirihluti stjórnarinnar lagði fram bókun á fundi bæjarstjórnar í vikunni þar sem ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því nýverið, um að hefja rannsóknarvinnu vegna jarðganga um Óshlíðarveg, er fagnað. Minnihluti bæjarstjórnar tók ekki undir þessa bókun heldur lagði fram aðra sem gagnrýnir harðlega vinnubrögð meirihlutans í málinu og vill að göng verði lögð á öðrum stað en um Óshlíðina. Vill minnihlutinn frekar að farið verði í gangagerð um Syðridalsbotn en göngin myndu þá tengjast Vestfjarðagöngunum svokölluðu. Á annað þúsund undirskriftir hafa safnast á vegum samtakanna „Við viljum jarðgöng“ en þar er þess farið á leit að leið minnihlutans verði frekar farin en Óshlíðarleiðin. Minnihlutinn lýsir jafnframt undrun sinni á því að forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkur, Elías Jónatansson, hafi ásamt Kristni H. Gunnarssyni, þingmanni Framsóknarflokks og íbúa í Bolungarvík, fundað með Vegamálastjóra án vitundar og heimildar bæjarstjórnarinnar. Segir í bókun minnihlutans að þar sem talsverður tími hafi liðið milli funda hafi verið eðlilegt að kalla bæjarstjórn saman fyrir fundinn með Vegamálastjóra. Þessu hafnar meirihlutinn sem segir að greint hafi veirð frá fundinum á fyrsta bæjarráðsfundi eftir fundinn með þingmanninum og Vegamálastjóra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×