Innlent

Neitar lögum um meðferð fanga

George Bush Bandaríkjaforseti hyggst beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir að lög sem fjalla um meðferð stríðsfanga taki gildi. Í brýnu gæti slegið með honum og Bandaríkjaþingi í kjölfar þess að þingið samþykkti lögin í gær. Í nótt voru lögin samþykkt á þingi. Um er að ræða fjárlög varnarmálaráðuneytisins en að undirlagi Johns McCains þingmanns var bætt inn í þau grein um meðferð stríðsfanga þar sem bönnuð er grimmdarleg, ómannúðleg og niðurlægjandi meðferð. Yfirgnæfandi meirihluti þingmanna í öldungadeildinni studdi breytinguna en Bush Bandaríkjaforseti er henni mótfallinn. Scott McClellan, talsmaður Hvíta hússins, segir breytinguna óþarfa og að hún takmarki úrræði forsetans í stríðinu gegn hryðjuverkum. Hann muni því líklega beyta neitunarvaldi til að hindra að lögin taki gildi. McCain segir hins vegar að taka verði af allan vafa um hvernig hermenn megi og eigi að koma fram við fanga. Þess hafi verið krafist að hermenn skili árangri og upplýsingum úr yfirheyrslum án þess að skýrt hafi verið hvaða úrræðum megi beita til þessa. Þegar allt hafi farið á versta veg hafi skuldinni verið skellt á óbreytta hermenn, en þeir eigi betra skilið. Kveikjan að breytingatillögu McCains, sem sjálfur var stríðsfangi í Víetnam, var opið bréf til hans í dagblaðinu Washington Post í síðustu viku þar sem bandarískur hermaður lýsti því hvernig hann hefði orðið vitni að morðhótunum, morðum, beinbrotum, líkamlegum pyntingum, svefnsviptingu og niðurlægjandi meðferð á stríðsföngum bæði í Afganistan og Írak. Nú er beðið næsta skrefs í málinu, viðbragða Hvíta hússins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×