Innlent

Konum fjölgar í sveitarstjórnum

Ef sameining verður samþykkt má búast við að konum fjölgi í sveitarstjórnum. Sameiningarkosningarnar á morgun snerta 96 þúsund manns í 61sveitarfélagi. Dæmin sýna að hlutur kvenna í sveitarstjórnum er meiri í stærri og fjölmennari sveitarfélögum en þeim fámennari. Hlutur kvenna í sveitarstjórnum er almennt meiri í stærri sveitarfélögum en þeim smærri. Hæst er hlutfall kvenna í sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu en þar eru konur 43 prósent kjörinna fulltrúa. Í sveitarfélögum með fleiri en eitt þúsund íbúa er hlutfall kvenna í sveitarstjórn um 35 prósent en hlutfallið er um 29 prósent í sveitarfélögum með færri en 500 íbúa. Ingunn Helga Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, segir að til lengri tíma litið sé sameining og stækkun sveitarfélaga ávísun á aukinn hlut kvenna í sveitarstjórnum. Hins vegar sé mjög mikilvægt að benda á það að við sameiningu sveitarfélaga fækki þeim sætum í sveitarstjórn sem séu til boða. Þess vegna sé mjög mikilvægt við uppröðun á lista fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar að hafa kynjasjónarmið ofarlega á blaði. Ingunni segir enn fremur að dæmi hafi sýnt að fyrst eftir sameiningu séu sveitarstjórnir hafðar frekar fjölmennar og þá séu kynjahlutföllin í lagi en eftir tvö til þrjú kjörtímabil hafi sætunum fækkað og þá detti konur út. Þess vegna sé mikilvægt að hafa sætin fleiri en færri í sveitarstjórnum. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×