Innlent

Íbúar hafna víða sameiningu

„Niðurstaðan kemur á óvart, ekki síst í ljósi margítrekaðra samþykkta sveitar­stjórnarmanna um vilja til sameiningar. Hún hlýtur að vera sveitarstjórnarmönnum veruleg vonbrigði,“ sagði Árni Magnússon félagsmálaráðherra um niðurstöður sameiningarkosninga sveitar­­félaga­ sem fram fóru í gær. Árni sagðist telja að í niðurstöðunum endurspeglaðist skoðun íbúa landsins á því hvernig þeir vildu sjá sín sveitarfélög og sá vilji skaraðist við vilja sveitarstjórnarmanna. Hann furðaði sig þó nokkuð á niðurstöðunni, enda hefðu skoðanakannanir meðal almennings bent til þess sama og komið hefði fram í samþykktum sveitarstjórnar­manna. „En niðurstaðan er þessi í lýðræðislegri kosningu.“ Þá segir Árni merkilegt að sjá hveru sláandi lítil þátttaka hafi verið í kosningunum í stærri sveitarfélögum meðan í sumum þeirra smærri hafi íbúar flykkst á kjörstað til að hafna sameiningu. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segist hafa orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með kjörsóknina í Hafnarfirði. Hann sagðist hafa vonast eftir um 30 prósenta þátttöku, en raunin varð 14 prósent. „Í stærri sveitarfélögum virðist fólki þetta ekki vera neitt stórmál, enda er þetta fyrst og fremst mál minni sveitarfélaga,“ segir hann og kveðst jafnframt hafa orðið var við áberandi neikvæðan tón til sameiningarhugmyndanna í smærri sveitarfélögunum. „Það sem gerir erfitt að ræða þessi mál til fullnustu er til dæmis að ekki liggja fyrir skýrar línur stöðu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og því ekki ljóst hver fjárhagsleg staða þessara sveitar­félaga verður eftir þær breytingar sem verið er að boða.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×