Innlent

Engar skipanir í Baugsmálinu

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir réttarkerfið ekki hafa sagt sitt síðasta í Baugsmálinu, þrátt fyrir að aðeins átta af fjörutíu upphaflegu ákæratriðunum standi eftir. Ráðherra telur best fyrir alla sem að málinu koma að það verði tekið til efnismeðferðar fyrir dómstólum. Björn sagði á heimasíðu sinni í gær að að réttarkerfið hefði ekki sagt sitt síðasta í Baugsmálinu. Björn sagði í dag í samtali við fréttastofu: "Málið er enn fyrir héraðsdómi og því hefur ákæruvaldið enn heimildir til að halda áfram með málið og taka upp þá liði ákærunnar sem hæstiréttur taldi ábótavant í gær," sagði Björn og vísaði því alfarið á bug að hann væri að gefa fyrirmæli um framhald málsins.   Í Ísland í bítið í morgun sagði Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, að framsóknarmenn gætu ekki borið ábyrgð á Birni Bjarnasyni. Björn segist ekki átta sig á því mati Kristins; málið sé ekki á sínum herðum enda fyrir dómstólum. "Þetta er fyrir dómstólum og enginn sekur í þessu máli fyrr en dómur hefur fallið." Björn segir aðspurður um álit sitt á niðurstöðu hæstaréttar að hún hafi verið rökstudd og harkalega orðuð að mörgu leyti. Hins vegar hafi ákæruvaldið tekið niðurstöðunni af mikilli alvöru.  Björn segir mikilvægt að fá efnislega niðurstöðu í Baugsmálið þar sem verið er að þróa opið þjóðfélag þar sem viðskiptamenn fá tækifæri sem aldrei hafa boðist áður. Hann segir nauðsynlegt að sjá hvar mörkin liggja eins og tekist sé á um í þessu máli. Hann telur þörf á umræðum í kjölfar þess áfellisdóms.  Björn vill ekki útilokað að ákæruvaldið í efnahags- og skattamálum verði flutt frá ríkislögreglustjóra til ríkissaksóknara en telur það ólíklegt þar sem ekki séu fordæmi fyrir því í nágrannalöndunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×