Innlent

Sakaði Björn um blaður og brottför

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra var sakaður um að segja ákæruvaldinu fyrir verkum með skrifum á heimasíðu sinni á Alþingi í dag. Steingrímur J Sigfússon, formaður Vinstri-grænna sagði, ráðherrann blaðra á heimasíðunni en flýja síðan til útlanda. Þingmenn stjórnarandstöðunnar fóru hamförum í ræðustól á Alþingi í dag vegna skrifa Björns Bjarnasonar á heimasíðu sinni frá í gær þar sem hann sagði réttarkerfið ekki hafa sagt sitt síðasta orð í Baugsmálinu. Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að fyrir lægi að trúnaðarmenn sjálfstæðisflokksins hefðu komið að baugsmálinu í aðdragenda þess en formaður sjálfstæðisflokksins hefði lýst því yfir að ef pólitískur fnykur væri að málinu yrði því fleygt út úr . "Dómsmálaráðherra er yfirmaður ákæruvaldsins og honum ber að gæta hófs í orðum sínum," sagði Lúðvík. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, tók í sama streng og sagði skýrt að með orðum sínum hefði Björn verið að gefa ákæruvaldinu fyrirmæli um framhald málsins. "Það þarf engan snilling til að sjá hvað felst í þessum orðum dómsmálaráðherra," sagði Ágúst Ólafur. Sigurður Kári Kristjánsson sagði ljóst að ráðherrann hefði einungis bent á það sem satt væri, að réttarkerfið hefði ekki sagt sitt síðasta orð í málinu. Það vissu allir að fallið hefði dómur um frávísun 32 ákæruliða í málinu en málið héldi áfram. "Réttarfarsreglurnar sem gilda í þessu landi ganga út á það," sagði Sigurður Kári. Steingrímur J Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, sagði dóminn ekki einatt áfellisdóm yfir ákæruvaldinu heldur einnig yfirmanni ákæruvaldsins, Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra. "Hér er eitt stærsta og dýrasta embætti þjóðarinnar sekt um ótæk vinnubrögð og verður þó ekki borið við fjárskorti eða umhyggjuskorti af hálfu fjárveitingavaldsins undanfarin ár, því þetta embætti hefur tútnað út meira en nokkur önnur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×