Innlent

Vilja iðgjöld í heilbrigðiskerfinu

Um 1.200 manns eiga seturétt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem hefst í dag og stendur í fjóra daga. Davíð Oddsson flytur setningarræðu á sjötta tímanum og verður það í síðasta sinn sem hann gegnir þessu hlutverki en eftirmaður hans á formannsstóli verður kjörinn á sunnudag. Margar tillögur að ályktunum liggja fyrir þinginu. Í tillögu að ályktun um heilbrigðismál er til að sjúkratryggingum verði breytt þannig að iðgjöld verði tekin í stað þess að þjónustan sé greidd af sköttum. Á móti er lagt til að skattar lækki sem nemur iðgjöldum og að réttindi þeirra sem ekki geta greitt iðgjöld verði tryggð. Sjálfstæðismenn vilja lækka tekjuskatt og virðisaukaskatt, fella niður stimpilgjald og endurskoða vörugjöld. Þá vilja þeir láta meta kosti þess og galla að leggja fimmtán til tuttugu prósenta flatan skatt á einstaklinga, fyrirtæki og neyslu. Athygli vekur að í kafla um stjórnarskrármál og fyrirhugaðar breytingar á henni er ekkert fjallað um hvort forseti skuli áfram geta hafnað lögum staðfestingar. Búast má við að flugvallarmál verði ofarlega á baugi á þinginu. Ekki er kveðið upp úr um framtíð Reykjavíkurflugvallar í drögunum að öðru leyti en því að flutningi innanlandsflugs til Keflavíkur er hafnað. Stuðningi er lýst við úttekt á kostum og göllum þess að byggja upp nýjan flugvöll á höfuðborgarsvæðinu í stað flugvallarins í Vatnsmýri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×