Innlent

Misráðin ályktun

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna segja að ályktun Sjálfstæðisflokksins um að synjunarvald forsetans verði fellt úr gildi, sé misráðin og beri ekki vott um sáttatón. Flokkurinn sé hikandi við að ákveða hvað eigi að koma í staðinn. Samkvæmt ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um réttarfars- og stjórnskipunarmál, er talið óhjákvæmilegt að ákvæði 26. greinar stjórnarskrárinnar um synjunarvald forseta Íslands verði fellt úr gildi, en að skýrar verði kveðið á um inntak þingræðis, stöðu forsetans og eðli og valdheimildir ríkisstjórnar. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, er ósammála því að eitthvað sé óumflýjanlegt í þessum efnum. Steingrímur segir ekki sáttatón í ályktun sjálfstæðismanna. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir að forseti hafi aðeins einu sinni á sextíu árum gripið til málskotsréttarins og því um einkennilega ályktun að ræða hjá sjálfstæðismönnum. Hann sagði jafnframt að það þurfi að setja fleiri ákvæði inn í stjórnarskrána varðandi aðkomu fólks að því að hafa áhrif á einstök mál. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sér enga ástæðu til að afnema málskotsréttinn.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×