Innlent

Innanlandsflugið fer hvergi

Lítill áhugi er á fyrir því á þingi að flytja innanlandsflugið úr Vatnsmýrinni og enn minni áhugi fyrir því að byggja upp nýjan flugvöll á höfuðborgarsvæðinu. Þetta mátti heyra í utandagskrárumræðum á Alþingi þar sem aðeins þrír af tíu ræðumönnum lýstu trú á að flugið færi úr Vatnsmýrinni. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, hóf umræðuna. Hann hvatti til athugunar á því hvort byggja ætti upp nýjan millilandaflugvöll á suðvesturhorninu vegna aukinnar nýtingar Keflavíkurflugvallar og sagði engan glæp að því að hafa hann í Reykjavík. Hann vildi hins vegar líka skoða fleiri möguleika á nýjum flugvelli á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfarið komu í ræðustól þingmenn úr öllum flokkum og lýstu efasemdum um ágæti þess að flytja millilandaflugvöllinn úr Vatnsmýri. Þingmenn óaði við kostnaðinum og töldu mikilvægt að tryggðar væru góðar samgöngur milli höfuðborgar og landsbyggðar. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra fagnaði því að sjónarmið hans um að tryggja hagsmuni innanlandsflugsins og flugsamgöngur ættu svo marga stuðningsmenn á þingi. Hann sagðist hins vegar ekki sjá fyrir sér að byggður yrði upp nýr millilandaflugvöllur á suðvesturhorninu. Tveir þingmenn sögðust telja að innanlandsflugið færi úr Vatnsmýrinni. Björgvin G. Sigurðsson Samfylkingu og Ögmundur Jónasson, Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, spáðu því báðir að innanlandsflugið færi til Keflavíkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×