Innlent

Segja hátt gengi ekki skila sér

Forsætisráðherra og þingmenn úr nær öllum flokkum gagnrýndu að hátt gengi íslensku krónunnar hefði ekki haft áhrif til lækkunar á matarverði. Þingmaður Samfylkingarinnar spurði hvort það væri almenn skoðun alþingismanna að íslenskir verslunareigendur væru hyski. Það var Rannveig Guðmundsdóttir sem hóf umræðu um þróun matvælaverðs á Íslandi, virðisaaukaskatt á matvælum sem Samfylkingin vill lækka um helming og haftastefnu í innflutningi landbúnaðarvara. Forsætisráðherra sagði koma til greina að lækka matarskattinn en þó ekki á þessu ári. Halldór Ásgrímsson sagði að þeir hefðu talið að rétt væri að lækka tekjuskattinn fyrst enda er það tryggara að slík lækkun skili sér til almennings. Alveg með sama hætti og gengið þá sé ekki sama trygging fyrir því að skattalækkun skili sér með sama hætti til almennings. Þingmenn úr öllum flokkum nema Samfylkingu tóku undir með forsætisráðherra hvað varðaði matvælaverð og gengið. Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður Vinstri-grænna sagði sterka stöðu krónunnar ekki vera að skila sér til neytenda og það væri umhugsunarefni. Þenslan væri mikil og á meðan að allt selst sama hvaða verð er sett á það þá sé spurning hvort að verslanir finni sig knúnar til að lækka verð.  Rannveig Guðmundsdóttir sagði að Samkeppniseftirlitið gæti ekki borið uppi þá vinnu sem þyrfti til að breyta matarverðinu. Það tæki ekki ákvarðanir um stuðning við landbúnaðinn sem væri um þrettán milljarðar á ári, um tollabreytingar eða skatta. Hún sagði að það hefði verið reiknað út í Noregi hvað verð á matvöru fyrir fjögurra manna fjölskyldu myndi lækka mikið á ári við Evrópusambandsaðild. Það hafi verið um 250 þúsund krónur á ári. Þá megi benda á að matarskattur hafi verið lækkaður í fjórtán prósent í Noregi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×