Innlent

Skólastefnu og kvenfrelsi ber hæst

Endurskoðun stjórnmálaályktunar þar sem Vinstrihreyfingin - grænt framboð er skilgreind sem flokkur kvenfrelsis og viðamikil menntastefna eru meðal þess sem ber hæst á flokksþingi Vinstri-grænna sem hefst í dag að mati, Steingríms J. Sigfússonar, formanns flokksins. Á fjórða hundrað fulltrúar eiga rétt til setu á flokksþinginu. Steingrímur J. er hæst ánægður með fjöldann, ekki síst í ljósi þess að rétt rúmlega hundrað manns sátu fyrsta reglulega flokksþingið sem haldið var á Akureyri haustið 1999. "Ég held að þetta verði kraftmikill fundur og sá særsti sem við höfum haldið hingað til." "Ég býst við að eitt af því sem beri hvað hæst sé endurskoðun stefnuyfirlýsingarinnar," segir Steingrímur og bendir á að þar sé kafli um kvenfrelsi og með honum verði Vinstrihreyfingin - græn framboð fyrst stjórnmálaflokka til að skilgreina sig sem flokk kvenfrelsis. Fyrir flokksþinginu liggja einnig drög að menntastefnu þar sem leitast er við að skilgreina og samþætta skólakerfið frá grunnskóla til háskólastigs. "Þessi skóla- eða menntastefna er viðamikið plagg sem við erum afskaplega stolt af," segir Steingrímur og telur hana gott innlegg í umræðuna um skólamál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×