Innlent

Fauk í Bandaríkjamenn

Það fauk í Bandaríkjamenn í kjölfar viðræðufunda með Íslendingum um varnarmál í síðustu viku í Washington. Í bandaríska varnarmálaráðuneytinu er vilji fyrir því að loka Keflavíkurstöðinni og hörð samningatækni Íslendinga gerir þeim sem bera á móti erfitt fyrir.

Varnarviðræður Íslendinga og Bandaríkjamanna í síðustu viku stóðu stutt. Íslensku sendinefndinni þótti tilboð Bandaríkjamanna ekki gefa tilefni til efnislegra viðræðna og því var þeim í raun slitið áður en þær hófust.

Þetta kom flatt upp á Bandaríkjamennina og fulltrúar varnarmálaráðuneytisins munu vera á því að Íslendingar hafi ekkert til málanna að leggja, ekkert gangi að koma vitinu fyrir þá eins og það er orðað og viðræður séu tilgangslausar. Eins og staðan sé, sé í raun vænlegast að gera það sem æðstu menn í varnarmálaráðuneytinu vildu í upphafi: loka stöðinni.

Þó að íslenskir ráðamenn hafi blandaði bæði Bush forseta og Condoleezzu Rice utanríkisráðherra í málið er tilboð Bandaríkjamanna lítið breytt frá þeim tillögum sem kynntar voru fyrir kosningarnar 2003: orustuþoturnar burt, loftvarnir frá Skotlandi, Íslendingar borga stærsta hlut reikningsins við rekstur flugvallarins.

Íslensk stjórnvöld munu hins vegar ekki vera til viðræðna um neitt annað en skiptingu kostnaðar. Þó að vilji sé til viðræðna er himinn og haf á milli hugmynda fulltrúa þjóðanna í þeim málum. Ennfremur munu hugmyndir Íslendinga um varnir landsins vera mjög óljósar.

Engar líkur eru sagðar á að Keflavíkurstöðinni verði lokað á næstunni, þrátt fyrir vilja varnarmálaráðuneytisins. Í bandaríska utanríkisráðuneytinu er reynt að koma í veg fyrir þær, en háttalag Íslendinga er sagt gera það erfiðara.

Vonir eru bundnar við að samkomulag takist hið fyrsta á milli sjóhersins, sem rekur stöðina, og flughersins um að flugherinn taki við. Þá er sagt að annað viðhorf blasi við og hugsanlega tímabundin uppbygging á stöðinni, þó að langtímaáhrifin og þýðing fyrir varnir Íslands séu óljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×