Innlent

Kostnaðarsamar kosningar

Kostnaður vegna sameiningakosninga í ár nemur nærri hundrað og þrjátíu milljónum króna. Þrátt fyrir fjárútlátin var árangurinn magur: í aðeins einu tilfelli var sameiningin samþykkt.

Rétt tæplega hundrað þúsund manns búa í þeim sveitarfélögum sem kusu um sameiningu í haust svo að það lætur nærri að kostnaðurinn við kosningarnar og verkefnið í heild nemi þrettán hundruð krónum á hvern einasta íbúa.

Þetta kemur fram í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar. Fjárheimildir ráðuneytisins námu þrjátíu og átta og hálfri milljón króna. Því til viðbótar úthlutaði ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga níutíu milljónum til verkefnisins. Við þetta bætast nokkrar milljónir sem sveitarfélögin lögðu sjálf í púkkið, en sá kostnaður liggur ekki endanlega fyrir. Heildarkostnaðurinn er því um hundrað og þrjátíu milljónir króna, og það eina sem fékkst fyrir þessar milljónir er sameining Austurbyggðar, Fáskúðsfjarðarhrepps, Fjarðarbyggðar og Mjóafjarðarhrepps. Saurbæjarhreppur og Dalabyggð geta líka sameinast. Sameining var felld alls staðar annars staðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×