Innlent

Stjórnvöld verða að rannsaka ferðir CIA-flugvéla

Íslensk stjórnvöld verða að rannsaka ferðir CIA-flugvéla um íslenska flugvelli og lofthelgi eftir að Evrópuráðið krafðist svara um ferðir vélanna í Evrópu. Svara þarf innan þriggja mánaða.

Fregnir af ferðum CIA-flugvéla og um leynileg fangelsi bandarísku leyniþjónustunnar í Evrópu hafa leitt til rannsókna í fjölmörgum löndum og í dag þótti framkvæmdastjóra Evrópuráðsins tímabært að safna öllum upplýsingum saman á einn stað. Hann beitti því fimmtugustu og annari grein mannréttindasáttmála Evrópu til að krefja aðildarlönd sáttmálans um svör innan þriggja mánaða.

Þór Vilhjálmsson, fyrrverandi hæstaréttardómari og dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, sagði í samtali við fréttastofuna að íslensk stjórnvöld yrðu að bregðast við tilmælum Evrópuráðsins þar sem Evrópusáttmálinn væri lögbundinn hér á landi. Því verða íslensk stjórnvöld nú að rannsaka ferðir CIA-véla um íslenska flugvelli og lofthelgi. Í texta ráðsins er að vísu ekki vísað beint til CIA-véla heldur meðal annars beðið um útskýringar á því hvort og hvernig lög aðildarríkja tryggja eftirlit með aðgerðum útsendara erlendra ríkisstjórna á landsvæði aðildarríkjanna, og hvernig lög tryggi að þeim sem beita pyntingum sé refsað.

Portúgalar vilja rannsókn á ferðum CIA-véla um flugvelli í Portúgal og á Azor-eyjum, forsætisráðherra Póllands telur eðlilegt að rannsaka sögusagnir um ferðir vélanna og á Finnlandi er einnig verið að athuga málið, að sögn Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra landsins. Svissneski þingmaðurinn Dick Marty er að rannsaka ferðir þrjátíu og einnar vélar og vill að NATO, Sameinuðu þjóðirnar og Eurocontrol, flugumsjón í Evrópu, veiti aðstoð við að upplýsa málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×