Innlent

Ráðherra gerir alvarlegar athugasemdir við öryrkjaskýrslu

MYND/GVA

Heilbrigðisráðherra mun í dag gera alvarlegar athugasemdir við skýrslu Stefáns Ólafssonar prófessors um hag öryrkja á Íslandi í samanburði við hag öryrkja annars staðar á Norðurlöndum. Stefán hefur nú þegar gert lítið úr athugasemdum forsætisráðherra, sem sagði að niðurstöður Stefáns væru rangar í mörgum meginatriðum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu NFS mun heilbrigðisráðhera einkum gera athugasemdir við það að að Stefán telji að aldurstengdar bætur séu tengdar aldri bótaþega, en þær eru tengdar þeim aldri sem bótaþegi er í fyrsta sinn metinn með 75 prósenta örorku. Að mati heilbrigðisráðherra skekkir þetta myndina þar sem eðlilegra hefði verið að að bæta aldurstengdu uppbótinni við, en þá hefði tekjuhlutfalllið farið úr 62 prósentum upp í 83 prósent.

Og ef svo tekjutengingunni, tekjutryggingaraukanum og heimilisuppbótinni er bætt við fer hlutfall bótanna upp í 120 prósent af lágmarkslaunum sem er næstum tvöfalt hærri tala en Stefán heldur fram.

Þá mun heilbrigðisráðherra ekki fallast á þá aðferð Stefáns að bera saman grunnlífeyri, tekjutryggingu og eingreiðslu við kjör öryrkja annars staðar á Norðurlöndum en sleppa alveg tekjutryggingaauka, aldursuppbót og heimilisuppbót hér á landi. Það skekki myndina verulega, svo stiklað sé að helstu athugasemdum sem NFS hefur heimildir fyrir að ráðherra geri í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×