Innlent

Menntamálaráðherra harðlega gagnrýndur

Þriðja umræða um fjárlögin fór fram á Alþingi í dag. Fjárlagafrumvarpið hefur ekki tekið breytingum frá annarri umræðu en minnihlutinn hefur þó lagt til fjölmargar breytingatillögur. Menntamálaráðherra var harðlega gagnrýndur við upphaf þingfundar í dag fyrir að hafa tjáð sig í fjölmiðlum um nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið, áður en því var dreift í þinginu. Þá voru framsóknarmenn inntir eftir loforði sínu um að Ríkisútvarpinu yrði aldrei breytt í hlutafélag.

Kolbrún Halldórsdóttir Vinstri grænum sagði að Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra hefði fjallað í smáatriðum um frumvarp um Ríkisútvarpið áður en því var dreift á Alþingi. "Svona gerir maður ekki," sagði Kolbrún.

Dagný Jónsdóttir Framsóknarflokki furðaði sig á gagnrýninni og það gerði Sigurður Kári Kristjánsson líka. Ögmundur Jónasson sagði ráðherrann sýna þinginu óvirðingu að frumvarpið sé kynnt í fjölmiðlum áður.

Þorgerður Katrín sagði málið í eðlilegum farvegi og það væri viðtekin venja að tjá sig með þessum hætti. Hún sagðist búast við því að ef menn úr stjórnmálaandstöðunni ætli að vera samkvæmir sjálfum sér þá muni þeir ávallt leggja mál fyrir þing og tjá sig síðan.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×