Innlent

Launaskriðið er hjá stjórnendum

Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri. MYND/E.Ól

Launaskriðið er hjá stjórnendum fyrirtækja en ekki almennum launþegum segir borgarstjóri. Laun hundrað stjórnenda hækkuðu um hálfan milljarð króna í fyrra en samningur borgarinnar við fimm þúsund starfsmenn sína skilar þeim samanlagt einum og hálfum milljarði í launahækkun á næsta ári.

Reykjavíkurborg gekk á dögunum frá kjarasamningi við um fimm þúsund starfsmenn sína í þremur stéttarfélögum sem færir launþegum að meðaltali um fimmtán prósenta launahækkun við upphaf samningstímans. Forystumenn í atvinnulífinu hafa gagnrýnt sveitarfélögin fyrir að gefa of mikið eftir í kjarasamningum við starfsmenn sína og gæta ekki nægilegs aðhalds.

Steinunn Valdís segir slíka gagnrýni koma úr hörðustu átt, úttekt á þeim upplýsingum sem birtust í Tekjublaði Frjálsrar verslunar í ár og í fyrra sýni að hundrað launahæstu stjórnendur fyrirtækja hækkuðu um hálfan milljarð króna í tekjum milli ára. Launahækkun fimm þúsund starfsmanna sem nýi samningurinn tekur til, sem eru að stærstum hluta konur, nemi einum og hálfum milljarði króna fyrsta ár samningstímans. Þá finnst henni furðulegt að menn óttist að allt fari á annan endann þegar laun þeirra launalægstu séu hækkuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×