Innlent

Hjördís sátt

MYND/Vísir

Hjördís Hákonardóttir dómsstjóri er sátt við samkomulag sem náðst hefur milli hennar og Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra vegna úrskurðar kærunefndar jafnréttismála. Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu á sínum tíma að dómsmálaráðherra hafi brotið jafnréttislög þegar hann skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson hæstaréttardómara í ágúst árið 2003.

Hjördís kærði skipun Ólafs Barkar til kærunefndar jafnréttismála þar sem hún taldi að Björn hefði brotið jafnréttislög. Í úrskurði kærunefndar í apríl árið 2004 var niðurstaðan sú að dómsmálaráðherra hafi brotið lög með skipuninni. Beindi kærunefndin þeim tilmælum til dómsmálaráðherra að fundin yrði viðeigandi lausn.

Atli Gíslason lögmaður Hjördísar segir að ef lausn hefði ekki fundist hefði Hjördís höfðað dómsmál. Lausn fannst hins vegar á haustmánuðum eftir viðræður og eru báðir aðilar sáttir við hana.

Í samkomulaginu fellst að Hjördís fer í árs námsleyfi frá og með 15. desember síðastliðnum. Atli getur þó ekki tjáð sig um samkomulagið að öðru leyti en hann á ekki von á því að Hjördís snúi aftur til starfa sem dómsstjóri hjá Héraðsdómi Suðurlands að loknu námsleyfinu. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vildi ekki tjá sig um málið þegar NFS leitaði eftir viðbrögðum hans vegna samkomulagsins.

Atli segir það alveg inn í myndinni að Hjördís sæki aftur um stöðu Hæstaréttardómara þegar losnar næst en hann telur að hún hafi þó enga ákvörðun tekið í þeim málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×