Innlent

Forsætisráðherra ræðir ekki kjarabæturnar án greinargerðar

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segist sjálfur vera undrandi á launahækkuninni.
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segist sjálfur vera undrandi á launahækkuninni. MYND/GVA

Forsætisráðherra vill ekki ræða kjarabætur til handa, ráðherrum, ríkisstjórn og æðstu embættismönnum við fjölmiðla nema fyrir liggi greinargerð frá Kjaradómi. Hann hefur hins vegar kallað aðila vinnumarkaðarins á sinn fund strax eftir jól. Formenn allra stjórnarandstöðuflokkanna hafa skrifað forsætisráðherra og farið fram á að Alþingi verði kallað saman á milli jóla og nýárs til að ræða málið.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagðist sjálfur vera undrandi á launahækkuninni og kallaði formann Kjaradóms á sinn fund í gærmorgun til að fá skýringar. Formaðurinn, Garðar Garðarsson, útskýrði málið í fjölmiðlum í gær, meðal annars á þann veg að hann væri að fara að lögum frá Alþingi. Sú skýring nægir hins vegar ekki. Greinargerðin er í smíðum að sögn Garðars, sem bjóst við því að hún yrði send forsætisráðherra í kvöld.

Margir þingmenn hafa ólmir viljað koma saman til að ræða launahækkanir, ýmist sínar eigin eða annarrra þótt engin formleg beiðni um slíkt hefði borist forsætisráðherra að sögn aðstoðarmanns hans í gær. Síðdegis varð hins vegar breyting þar á þegar formenn allra stjórnarandstöðuflokkanna skrifuðu forsætisráðherra og lýstu þeirri skoðun sinni að þing ætti að koma saman milli jóla og nýárs.

 

Í bréfinu segir orðrétt:

Með vísan til nýgengins úrskurðar Kjaradóms um laun æðstu embættismanna, og þeirrar stöðu sem upp er komin í kjara- og efnahagsmálum, teljum við rétt að Alþingi komi saman og taki þau mál fyrir. Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna eru reiðubúnir til að koma saman til fundahalda nú þegar milli jóla og nýárs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×