Innlent

Stjórnarandstaðan setur fyrirvara við væntanlega endurskoðun Kjaradóms

MYND/Valgarður

Stjórnarandstaðan styður að hálfu leyti þá ákvörðun Halldórs Ásgrímssonar að skipa Kjaradómi að endurskoða ákvörðun sína varðandi laun þjóðkjörinna fulltrúa. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vill aðkomu Alþingis að málinu og Ögmundur Jónasson vill einnig sjá endurskoðun á launum dómara.

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, tilkynnti aðilum vinnumarkaðarins þá ákvörðun sína í dag að hann óskaði eftir því að Kjaradómur endurskoðaði launahækkun þingmanna og ráðherra. Hann sagði óeðlilegt að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið hefðu afskipti af kjörm dómara. Hann sagðist jafnframt ekki sjá ástæðu til að kalla saman þing. Stjórnarandstaðan styður ákvörðun forsætisráðherra en setur þó fyrirvara.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagðist ekki setja sig upp á móti þeirri leið sem forsætisráðherra kýs að fara og sagðist líta á þetta sem biðleik í stöðunni. Hún sagðist einnig gjarnan hafa viljað sjá aðkomu Alþingis að málinu þar sem Alþingi ber ábyrgð á lagasetningunni.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, hefði viljað víðtækari endurskoðun launa í stað þess að binda endurskoðunina eingöngu við þjóðkjörna fulltrúa. Hann segir einnig ákvörðun Kjaradóms um launahækkanir enduspegla launastefnu ríkisstjórnarinnar þar sem stöðugt sé leitast við að hífa upp laun þeirra hæst launuðu en aðrir fái minna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×