Innlent

Gunnar vill áfram vera í forystu í Kópavogi

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi.
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi. MYND/GVA

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, hyggst sækjast eftir því að leiða áfram sjálfstæðismenn í Kópavogi í bæjarstjórnarkosningunum í vor, en prófkjör vegna kosninganna verður haldið 21. janúar. Fjórir af fimm bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins hyggjast áfram gefa kost á sér.

Frestur til að skila inn framboðum fyrir prófkjör sjálfstæðismanna í Kópavogi rennur út á hádegi á morgun. Fjórir af fimm bæjarfulltrúum flokksins staðfestu við fréttastofu NFS að þeir hygðust áfram gefa kost á sér. Auk Gunnars eru það Ármann Kr. Ólafsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, sem segist ætlað að verja annað sætið sem hann tryggði sér í síðasta prófkjöri, Gunnsteinn Sigurðsson, sem varð í þriðja sæti og Sigurrós Þorgrímsdóttir sem varð í fjórða sæti. Hvorki Gunnsteinn né Sigurrós vildu gefa upp á hvaða sæti þau stefndu en Sigurrós sagði þó að hún stefndi ofar á listann. Hins vegar hefur Halla Halldórsdóttir ákveðið að gefa ekki kost á sér aftur i bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Gunnar Birgisson hefur verið í leyfi frá Alþingi í vetur vegna bæjarstjórastarfsins. Hann segir aðspurður að prófkjörið og kosningarnar í vor verði að leiða í ljós hvort hann hverfi aftur til starfa á þingi næsta haust eða hvort hann verði áfram í bæjarstjórnarstólnum. Of snemmt sé að spá nokkru um það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×