Innlent

VG vill að þing verði kallað saman

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Þingflokkur VG hefur sent frá sér ályktun um þá ákvörðun forsætisráðherra að skipa nefnd um úrskurð kjaradóms. Þingflokkurinn telur nauðsynlegt að fresta gildistöku kjaradóms til að skapa svigrúm til umræðu um forsendur ákvörðunar kjaradóms.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri Grænna, segir flokkinn tilbúinn til að tilnefna fulltrúa í nefnd forsætisráðherra vegna niðurstöðu Kjaradóms, að því gefnu að þing verði kallað saman á morgun eða á gamlársdag, til að setja lög sem fresta gildistöku launahækkanna æðstu embættismanna. Verði þing ekki kallað saman segir hann þingflokk Vinstri-grænna verða að koma saman aftur og ákveða þá hvort hann taki þátt í nefndarstörfum.

Ályktunin er svohljóðandi:

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs mun tilnefna fulltrúa í nefnd þá sem forsætisráðherra hefur skýrt frá að hann hyggist skipa vegna nýlegs úrskurðar kjaradóms. Þetta er að því gefnu að þing hafi áður komið saman, það er á morgun, til að afgreiða lög um frestun gildistöku kjaradóms frá 19. desember. Með frestun gildistökunnar skapast nauðsynlegt svigrúm til umræðu um forsendur ákvörðunar kjaradóms og hugsanlegar breytingar á lögum um kjaradóm og kjaranefnd. Mikilvægt er að samhliða nefndarstarfinu taki alþingi til umfjöllunar ört vaxandi launa- og lífskjaramun sem endurspeglast í umræddum dómi og grípi til markvissra aðgerða til að vinna gegn auknu misrétti í landinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×