Innlent

Stjórnarandstaðan segir ríkisstjórnina hafa farið illa með tímann

MYND/Teitur

Laun embættismanna hækka um tvö og hálft prósent eftir mánuð, en fram að því gildir úrskurður Kjaradóms. Stjórnarandstaðan segir ríkisstjórnina hafa farið illa með tímann og leysa hefði mátt málið fyrir áramót. Forseti ASÍ fagnar niðurstöðunni en skilur ekki hvers vegna beðið er með að láta hana taka gildi.

Að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun gengu formenn stjórnarandstöðuflokkanna á fund formanna stjórnarflokkanna í Ráðherrabústaðnum. Það var klár krafa stjórnarandstöðunnar fyrir þann fund, að þing yrði kallað saman strax svo hægt væri að fara yfir úrskurð Kjaradóms. Fundurinn stóð í röska klukkustund.

Forsætisráðherra segir að ekki hefði verið eðlilegra að kalla þing saman strax. Hann segir að sérfræðingastarf vegna nefndar sem á að endurskoða Kjaradóm, hefjist strax, þótt ekki verið skipað í nefndina strax. Ríkisstjórnin hafði beðið Kjaradóm að endurskoða laun kjörinna fulltrúa, en fyrirhuguð lækkun nær til fleiri.

Stjórnarandstæðingar segja ríkisstjórnina hafa farið illa með tímann, erfiðara geti verið að taka á málinu eftir að hækkunin hefur tekið tímabundið gildi. Utanríkisráðherra segir að ekki hafi verið farið illa með tímann, Kjaradómur hafi ekki viljað endurskoða ákvörðun um laun þjóðkjörinna fulltrúa. Hann segir þá leið ekki hafa verið fyrirfram dæmda, vegna þess að með breytingum hefði Kjaradómur viðurkennt mistök í upphaflegum úrskurði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×