Viðskipti innlent

Sjö fyrirtæki mega þegar byrja að selja raforku

Glerárvirkjun á Akureyri. Ottó V. Winther spáir því að smærri raforkuframleiðendur muni bindast samtökum um sölu raforku.
Glerárvirkjun á Akureyri. Ottó V. Winther spáir því að smærri raforkuframleiðendur muni bindast samtökum um sölu raforku.

Sjö fyrirtæki hafa fengið leyfi til að selja raforku til neytenda eftir að raforkusala var gefin frjáls um síðustu áramót. Veitur sem framleiða rafmagn þurfa sérstakt leyfi til að selja utan síns dreifisvæðis. Þær sem hafa fengið leyfi eru Hitaveita Suðurnesja, Norðurorka, Orkubú Vestfjarða, Orkuveita Húsavíkur, Orkuveita Reykjavíkur, Rafmagnsveitur ríkisins - RARIK og Rafveita Reyðarfjarðar.

Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu hafa tvær umsóknir að auki borist um leyfi til að stunda raforkuviðskipti. Búist er við að umsóknirnar verði afgreiddar á næstunni.

Ottó V. Winther viðskiptafræðingur er í forsvari fyrir annað félagið, Raforkusöluna ehf. Hann segir búið að gera samning um raforkukaup og verið sé að koma hluthafahópnum saman. Félagið uppfylli öll önnur skilyrði til raforkusölu. Hann segist ekki ætla að kaupa raforku af Landsvirkjun.

Inntur eftir því hvort ekki sé erfitt að fara í samkeppni við veiturnar sem framleiða sína eigin orku segir Ottó að það verði erfitt í byrjun. Hins vegar sé eftir einhverju að slægjast og ýmis tækifæri fyrir hendi.

Ottó segist sjá fyrir sér að margir smærri framleiðendur raforku muni vinna saman á þessum markaði þegar fram líða stundir og að hann muni þróast hratt á næstu misserum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×