Íslenska orkufyrirtækið Enex, ungverska olíu- og gasfélagið MOL og ástralska fjárfestingarfyrirtækið Hercules/Vulcan hafa skrifað undir samning sem markar upphafið að byggingu fyrstu jarðvarmastöðvar í Ungverjalandi sem ætluð er til raforkuframleiðslu. Samkvæmt upplýsingum Enex verður stöðin þrjú til fimm megavött að stærð.
Áætlaður heildarkostnaður verkefnisins nemur um 18,3 milljónum evra, tæpum einum og hálfum milljarði íslenskra króna. Hlutur Enex í fjárfestingunni er sagður vera 32 prósent.
Enex lítur á samstarfið við sterkan ungverskan aðila og sérhæfðan alþjóðlegan fjárfesti sem mikilvægt skref í að virkja jarðvarma í Ungverjalandi til raforkuframleiðslu. Þetta er aðeins upphafið en gert er ráð fyrir að virkja megi um 100 til 500 MW af raforku úr jarðvarma í Ungverjalandi á næstu árum, segir Lárus Elíasson, framkvæmdastjóri Enex.
MOL á um 8.000 borholur í Ungverjalandi og hefur verið í samstarfi við Enex frá 2003. Hercules er sérhæft ástralskt fjárfestingarfyrirtæki sem fjárfestir í orkulindum víðs vegar um heiminn. Vulcan kft. er svo ungverskt dótturfélag Hercules.
