Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poors staðfesti fyrir helgi lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs á langtímaskuldbindingum í erlendri mynt AA- og AA+ fyrir langtímaskuldbindingar í íslenskum krónum.
Einnig var staðfest einkunnin A-1+ fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt og íslenskum krónum. Horfur eru stöðugar, að mati Standard & Poors.
Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Seðlabanka Íslands, segir lánshæfismatið mjög gott og telur að það staðfesti sterka stöðu ríkissjóðs.
Við erum að borga niður erlendar skuldir og lánshæfismatið endurspeglar sterka stöðu ríkissjóðs samanborið við önnur lönd, sagði hann.
Þá sagði Sturla gott lánshæfismat Standard & Poors ánægjulegt í ljósi þeirra efasemda sem heyrst hafi undanfarið. Matsfyrirtækin kafa hvað dýpst ofan í staðreyndir mála áður en þau gefa út álit sín og okkur finnst að þau eigi að hafa meiri vigt en álit annarra aðila, sagði Sturla og vísaði í skýrslur fjármálafyrirtækja á borð við Fitch, sem sagði lánshæfishorfur ríkissjóðs neikvæðar.
Niðurstöðurnar eru í takt við það sem okkur finnst satt og rétt og ég held að lánshæfiseinkunnir Standard & Poors hjálpi til við að róa markaðinn, sagði Sturla.