Framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu er mun meira en þjóðhagsreikningar gefa til kynna og er þýðing hans fyrir íslenskt hagkerfi vanmetið í opinberum gögnum.
Þetta kemur fram í grein þeirra Ragnars Árnasonar, prófessors í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, og Sveins Agnarssonar, fræðimanns við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, í nýjasta hefti Fjármálatíðinda, sem kom út á mánudag.
Í greininni kemur fram að á fimmta áratug síðustu aldar hafi útflutningstekjur af sjávarútvegi numið 95 prósentum af útflutningi landsmanna. Við lok aldarinnar hafi hluturinn verið kominn í 60 prósent en láti nærri að 10. hver landsmaður hafi unnið við sjávarútveg. Leiða þeir líkum að því í niðurstöðum sínum að sjávarútvegurinn sé ennþá grunnatvinnuvegur á Íslandi.
Er þeim ekki kunnugt um að sömu aðferð hafi verið beitt áður í þessu skyni við könnun á öðrum greinum og mæla til þess að henni sé beitt til að kanna hvort fleiri atvinnugreinar fylli flokk grunnatvinnuvega hér á landi.