Innlent

Lyf hækka um tugi milljóna

Magnús Pétursson
Magnús Pétursson MYND/Pjetur

Lyfjakostnaður Landspítalans hækkar um sextíu til sjötíu milljónir, einungis vegna gengisbreytinga á þessu ári, ef reiknað er með að gengi helstu gjaldmiðla haldist óbreytt út árið. Þetta er mat Valgerðar Bjarnadóttur, sviðsstjóra innkaupa- og vörustjórnunarsviðs Landspítalans.

Lyfjakostnaður Landspítalans er um 2,7 milljarðar króna á ári eða tæp tíu prósent af heildarrekstrarkostnaði sjúkrahússins. Stærstur hluti þessara lyfja eru ný og dýr lyf sem aðeins eru gefin innan sjúkrahússins, sem stendur straum af kostnaði þeirra að fullu.

Magnús Pétursson, forstjóri Landspítalans, segir að allt sem er beintengt genginu eins og lyf, hjúkrunarvörur og tækjavörur skýri þann halla sem fimm mánaða uppgjörið sýni og að lyfin séu þar veigamest. Magnús býst við að sex mánaða uppgjör á rekstri sjúkrahússins muni þó ekki sýna mikið hærri tölur. „Stjórnvöldum er vel kunnugt um þennan vanda og það er heilbrigðisyfirvalda að gera eitthvað í því. það felst ekki í því að byggja hús heldur er það reksturinn sem skiptir mestu máli.“ Rekstrarhalli samkvæmt fimm mánaða uppgjöri er um tvö hundruð milljónir króna.

Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar alþingis, segir að fjárhagsstaða Landspítalans hafi ekki verið rædd innan nefndarinnar nýlega. „En það er ljóst að ríkisfyrirtæki verða, hvort sem þeim líkar það betur eða verr, að fara að fjárlögum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×