Tískuverslunarkeðjan Mosaic Fashions hagnaðist um 630 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi og alls um 740 milljónir á fyrri hluta rekstrarársins. Afkoma á öðrum ársfjórðungi hækkaði um 107 prósent á milli ára.
Uppgjörið er undir væntingum markaðsaðila sem höfðu spáð um 890 milljóna króna hagnaði. Stjórnendur Mosaic benda á að aðstæður á breskum smásölumarkaði hafi verið erfiðar en eru þokkalegir sáttir.
Af einstökum tískumerkjum jókst velta innan Coast mest eða um 25 prósent á milli ára, um 16 prósent hjá Karen Millen en sala hjá Oasis dróst saman um fjögur prósent.
Á fyrri hluta ársins voru 52 nýjar verslanir opnaðar innan samstæðunnar, ýmist í eigu Mosaic eða sérleyfishafa.