Ökumaður fólksbifreiðar fótbrotnaði illa á báðum fótum í hörðum árekstri tveggja bifreiða á Kringlumýrarbraut rétt sunnan við Bústaðabrú um sjö leytið í gærkvöldi. Umferð var lokað um Kringlumýrarbraut um tíma vegna slyssins.
Ökumaður fólksbifreiðar, sem var að koma úr suðurátt, missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hann fór yfir á öfugan vegarhelming og í veg fyrir jeppabifreið sem var að koma úr gagnstæðri átt. Ökumaður bifreiðarinnar sem fór yfir á rangan vegahelming slasaðist illa á báðum fótum en ökumaður jeppabifreiðarinnar slapp við alvarleg meiðsli.
Að sögn lögreglu bendir margt til þess að ökumaður fólksbifreiðarinnar hafi ekið of hratt miðað við aðstæður en tildrög slyssins eru í rannsókn hjá lögreglu.