Bíl var ekið út í sjó við Geirsnef við Elliðaárnar um hádegisbil í gær. Ökumaður og farþegi komust úr bílnum af sjálfsdáðum og sluppu án teljandi meiðsla. Þetta er þriðji bíllinn sem fer út í sjó á þessum slóðum síðan í febrúar á þessu ári.
Orsakir slyssins eru ekki ljósar en að sögn vitna var bílnum ekið ógætilega rétt áður en hann fór í sjóinn. Samkvæmt lögreglu nefndi eitt vitni að bíllinn hafi mögulega ekið út í sjó til þess að forðast að lenda á gangandi vegfarendum á svæðinu.
Það er spurning hvort borgin eigi ekki bara að loka fyrir umferð þarna, þetta er almenningssvæði, segir talsmaður lögreglunnar í Reykjavík.