Miðaldra Reykvíkingur hefur verið ákærður fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og er ákæran all skrautleg.
Manninum er gefið að sök að hafa í apríl á þessu ári farið inn í mannlausa bifreið og stolið þar leikfangabangsa. Viku síðar fór hann í heimildarleysi inn í íbúðarhúsnæði og hafði þaðan með sér skartgripi, stafræna myndavél, vettlinga, þrjú seðlaveski, sólgleraugu, fjögur úr og skilríki. Þrem dögum eftir þennan þjófnað fór hann inn í annað íbúðarhúsnæði þar sem hann stal styttu, stafrænni myndbandsupptökuvél í tösku, úlpu og stígvélum.Viku síðar fór hann inn í enn eina íbúðina og hafði þaðan með sér fartölvu og myndavél. Tveimur dögum síðar kom hann við í íbúð og hafði þaðan með sér skópar. Sama dag tók hann umslög og teikniblokk úr bíl.
Í júní fór maðurinn í félagi við annan inn í íbúðarhúsnæði. Þaðan var stolið Apple fartölvu, myndavél, tveimur seðlaveskjum, þremur farsímum, eyrnalokkum, pennaveski, verðlaunapeningum og skipulagsbók.
Maðurinn hefur neitað sök en áætlað er að verðmæti þýfisins slagi hátt í eina milljón króna.