Kreditkort hf. hefur lækkað ábyrgðar- og þjónustugjöld vegna Mastercard kreditkorta úr 2,5 prósentum í 2,2 prósent. Þóknun þessi er háð veltu og getur því lækkað eftir því sem velta seljenda er meiri. Lægst getur hún farið í eitt prósent.
„Ástæðan er aukin kortavelta síðustu misserin og hefur verið ákveðið að verja áhrifum vaxandi hagkvæmni sem af þessu leiðir á þennan hátt," segir í bréfi Kreditkorta til seljenda.
Andri Valur Hrólfsson, sviðsstjóri fyrirtækjasviðs VISA Íslands, segir að málið sé í skoðun hjá fyrirtækinu, en engin ákvörðun hafi verið tekin um að fylgja Kreditkortum eftir. „Við erum nú að endurskoða alla tekjumyndun á færslugjöldum kreditkorta. Ákvörðun Mastercard kallar ekki á bein viðbrögð af okkar hálfu."
Hámarksgjald VISA er 2,5 prósent en getur lægst farið niður í 0,9 prósent.