Nú er nýlokið fjögurra daga námskeiði í gæða- og öryggismálum í fiskhöfnum fyrir 35 hafnarstjóra á Sri Lanka. Hafrannsóknastofnun Sri Lanka og fiskimálaráðuneyti landsins stóðu að námskeiðinu en Þróunarsamvinnustofnun Íslands og Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna veittu tæknilega og fjárhagslega aðstoð.
Árni Helgason, umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar á Sri Lanka, segir gæðarýrnun vandamál í fiskiðnaði í landinu en talið er að 30–40 prósent af afla spillist frá því fiskur er veiddur og þar til hann kemst á borð neytenda. „Verðmætatap og minnkað næringargildi er mikið af þessum sökum en eitt af þróunarmarkmiðum fyrir fiskigeirann er að stuðla að umbótum á þessu sviði.
Þróunarsamvinna Íslands og Sri Lanka felur meðal annars í sér áherslu á umbætur í gæðamálum fiskafurða. Námskeiðið samanstendur af sextán fyrirlestrum um ýmsa þætti gæðamála fisk-afurða og skipulag góðrar meðferðar á fiski á hafnarsvæðunum. Efnið hefur verið gefið út í litprentuðum möppum á ensku, sinhala og tamíl, en það eru tungumálin sem töluð eru í landinu.