Viðskipti erlent

Toyota stefnir á stærri hlutdeild

Toyota Corolla. Toyota stefnir að því að auka markaðshlutdeild sína um fjögur prósentustig á næstu fjórum árum og verða stærsti bílaframleiðandi í heimi.
Toyota Corolla. Toyota stefnir að því að auka markaðshlutdeild sína um fjögur prósentustig á næstu fjórum árum og verða stærsti bílaframleiðandi í heimi.

Japanski bílaframleiðandinn Toyota, sem er næststærsti bílaframleiðandi í heimi, ætlar að spýta í lófana á næstu árum. Markmiðið er að reisa meðal annars verksmiðjur í Bandaríkjunum, á Indlandi og í Kína og ná fimmtán prósenta markaðshlutdeild á heimsvísu á næstu fjórum árum.

Toyota seldi 65 milljónir nýrra bíla á síðasta ári, undir eigin merkjum, Daihatsu og Hino Motors, sem tilheyra dótturfélögum. Stefnt er að því að auka söluna um tólf prósent á næstu fjórum árum og selja allt að 73 milljónir bíla. Þá er sömuleiðis horft til þess að sala á bílum undir merkjum Toyota aukist um fjórtán prósent á sama tíma en fyrirtækið seldi rúmar 7,2 milljónir bíla á síðasta ári, sem jafngildir ellefu prósenta markaðshlutdeild á heimsvísu.

Toyota horfir til þess að auka sölu á nýjum bílum, mest í Brasilíu, Rússlandi, Indlandi og í Kína, samkvæmt upplýsingum frá stjórn japanska bílaframleiðandans.

Fyrirtækið hefur verið á góðu skriði síðastliðin ár en búist er við að Toyota fari fram úr bandarísku bílasmiðunum hjá General Motors við árslok. Gangi það eftir verður Toyota stærsti bílaframleiðandi í heimi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×