Viðskipti innlent

Með sérsniðin viðskiptakerfi

Hugbúnaðarfyrirtækið Merkur Point hefur þróað sérsniðin viðskiptakerfi fyrir verslanir sem eykur hraða og öryggi í afgreiðslu. Fyrirtækið vinnur að innleiðingu kerfisins hjá matsölustaðnum Nings og víðar.

Ólafur Vignir Sigurvinsson, einn af þremur eigendum MerkurPoint, segir lausnir fyrirtækisins hentugar fyrir heimsendingafyrirtæki á borð við Nings þar sem kerfið heldur utan um viðskiptasögu einstaklinga og kemur með tillögur að nýjungum á matseðli. Þá heldur það utan um birgðaskrá, pantanakerfi og möguleiki er á að tengja kerfið við eftirlitsmyndavélar og senda SMS-skilaboð til viðskiptavina.

Innleiðing er þegar hafin á kerfinu í Svíþjóð og fyrir liggur að selja það til Danmerkur. Kerfið er til á fjórum tungumálum en um viku tekur að þýða það yfir á önnur tungumál.

Fleira er í þróun hjá Merkur Point, svo sem þráðlausar merkingar. Kerfið felur í sér að viðskiptavinir geta ekið innkaupakerrum að afgreiðslukassa, sem skannar verð án þess að varan sé tekin úr kerrunni. Þetta á að koma í veg fyrir biðraðir, að sögn Ólafs sem telur að kerfið geti verið komið í notkun hér á landi eftir um ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×