Viðskipti innlent

Tækifærin spruttu fram á árinu

Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir segir óvissu í alþjóðlegri fjárfestingastarfsemi framundan. Helsta tryggingin sé að hafa aðgang að varanlegu fjármagni sem gefur fjárfestum möguleika á að kaupa og selja á eigin forsendum.
Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir segir óvissu í alþjóðlegri fjárfestingastarfsemi framundan. Helsta tryggingin sé að hafa aðgang að varanlegu fjármagni sem gefur fjárfestum möguleika á að kaupa og selja á eigin forsendum.

Mikið framboð af fjármagni og auknar skuldsetningar einkenndu alþjóðlega fjárfestingamarkaði á árinu 2006 líkt og árið á undan. Engu að síður má greina vatnaskil í einstaka greinum og á sumum markaðssvæðum.

Íslensk stórfyrirtæki eru flest hver háð meginstraumum í alþjóðlegri fjárfestingastarfsemi, einkum þau sem starfa og fjárfesta erlendis. Á það var minnt á árinu hversu íslenskt efnhagslíf er viðkvæmt þegar alþjóðleg öfl verða mótdræg íslensku viðskiptalífi.

Í þeim löndum og í þeim atvinnugreinum, sem fyrirtæki þau sem ég veiti forystu, hafa starfað í, hafa sprottið fram bæði tækifæri til kaups og sölu. Styrkur þessara fyrirtækja hefur falist í traustri og öruggri fjármögnun sem skapar möguleika á að stunda viðskipti á eigin forsendum. Þau hafa selt og keypt þegar tækifærin hafa verið hvað best. Okkur tókst að selja farsællega eldri fjárfestingar bæði í fjárfestingabanka á Norðurlöndum og í símafyrirtækjum í Austur- og Mið-Evrópu með góðum hagnaði og þá nýttum við á árinu hagstæð kauptækifæri í fasteignum einkum í Norður- og Austur-Evrópu.

Fram undan er óvissa í alþjóðlegri fjárfestingastarfsemi. Helsta tryggingin er að hafa aðgang að varanlegu fjármagni sem gefur fjárfestum möguleika á að kaupa og selja á eigin forsendum. Þau íslensku og alþjóðlegu fyrirtæki sem ég hef mest starfað í þágu fyrir á síðasta ári, Novator, Actavis og Straumur-Burðarás, njóta þeirrrar gæfu að geta það. Allir möguleikar eru því fyrir hendi þannig að þessi félög geta áfram nýtt krafta sína til að eflast á alþjóðlegum mörkuðum. Héðan í frá og líkt og hingað til mun það styrkja og efla íslenskar rætur þessara fyrirtækja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×