Fyrrum heimsmeistarinn í Formúlu 1, Nigel Mansell, segir að Jenson Button verði að krækja í sinn fyrsta sigur mjög fljótlega ef hann eigi að standa undir væntingum með liði Honda í vetur. Besti árangur Button í keppni til þessa er annað sæti, en Mansell telur að hinum 26 ára gamla ökumanni sé hollara að fara að ná í sigur.
"Button þarf að fara að ná í sigur svo hann geti farið á næsta stig, því um leið og fyrsti sigurinn kemur gefur hann ökumanninum mikið sjálfstraust. Button verður líka að hafa í huga að hann er nú að keyra með Rubens Barrichello, sem á ekki eftir að gera honum neina greiða ef hann stendur sig ekki," sagði Mansell.