Erlent

Íranar eru jákvæðir

Vonir glæddust um lausn á kjarnorkudeilunni við Írana vegna yfirlýsinga um að þeir vilji skoða sáttatilboð Vesturveldanna af mikilli alvöru. Fregnir af eldflaugatilraunum Norður-Kóreumanna vekja hins vegar talsverðan ugg.

Allt frá því að Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, kom til Teheran með sáttatilboð Vesturveldanna í farteskinu í síðustu viku hafa þarlend stjórnvöld grandskoðað plaggið. Á meðal þess sem Írönum er boðið fyrir að hætta auðgun úrans er margvísleg aðstoð við þróun kjarnorku til friðsamlegra nota og að Bandaríkjamenn myndu taka beinan þátt í viðræðum við þá. Í gær lýsti Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, því yfir að tillögurnar væru skref í rétta átt og í dag tók Manouchehr Mottaki, utanríkisráðherra í svipaðan streng.

Það að Íranar hugleiði tilboð Vesturveldanna svo alvarlega eykur vonir um að kjarnorkudeiluna verði hægt að leysa á friðsamlegan hátt. Klerkastjórnin ætlar hins vegar að taka sér góðan tíma til að svara því. En á meðan áhyggjur af áformum Írana fara dvínandi vex hins vegar spennan á Kóreuskaganum. Þar undirbúa Norður-Kóreumenn að skjóta á loft langdrægri tilraunaeldflaug, undir því yfirskini að koma gervihnetti á sporbaug um jörðu. Eldflaugin getur dregið sex þúsund kílómetra, eða allt til borga á vesturströnd Bandaríkjanna, og því skoruðu Bandaríkjamenn og Japanar á stjórnvöld í Pjongjang í dag að láta af tilraununum. Norður-Kóreumenn eru taldir vera komnir á fremsta hlunn með að koma sér upp kjarnavopnum, ef þeir eru þá ekki þegar búnir að því, en hefur hingað til skort flaugar til að skjóta þeim. Þeir hafa hins vegar ekki gert tilraunir með eldflaugar síðan 1999.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×