Innlent

Umhverfis- og fegrunarátak

"Taktu upp hanskann fyrir Reykjavík" er yfirskrift nýs umhverfisátaks Reykjarvíkurborgar. Átakið hefst í Breiðholti og borgarstjóri kynnti það fyrir Breiðhyltingum í gærkvöldi.

Fegrun Breiðholts hefst formlega 22. júlí klukkan 11.00. Átakið hefst á þremur stöðum, í neðra Breiðholti við Breiðholtsskóla, í Fella- og Hólahverfi við Breiðholtslaug við Austurberg og í Seljahverfi við Hólmasel. Borgarstjóri segir að lögð verði áhersla á að virkja almenning og fyrirtæki til að taka þátt og hvetja alla með markvissum hætti til þess að hreinsa og hugsa vel um umhverfi sitt.

Ætlunin er að fá borgarbúa til liðs við starfsmenn borgarinnar í því að snyrta hverfin; tína rusl, hreinsa veggjakrot, leggja torfur, laga net á fótboltamörkum, kantskera, sópa og bæta girðingar. Starfsmenn Framkvæmdasviðs og Umhverfissviðs eru í þessu að gera allsherjarúttekt á hverfinu. Jafnframt verður áætlun gerð um endurbætur í hverfinu vegna verkefna sem kalla á meiri undirbúning svo sem endurbætur gangstétta og endurgerð opinna svæða. Fyrirhugað er að taka svo fyrir hvert borgarhverfi með sama hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×